Opinberar hagtölur geta veitt verulega villandi mynd af þeirri þróun sem þeim var upphaflega ætlað að veita, að sögn greiningardeildar Arion banka. Í Markaðspunktum deildarinnar í dag eru upplýsingar um viðskipt við útlönd á öðrum ársfjórðungi tekin sem dæmi. Deildin telur lítið verða til skiptanna á næstu árum enda fyrirsjáanlegar umtalsverðar afborganir af erlendum lánum næstu tvö árin. Ekki batnar staðan þegar kemur að því að greiða inn á skuldabréf gamla Landsbankans.

Deildin bendir m.a. á að  tölurnar séu litaðar af því að þar reiknist til gjalda áfallnir vextir vegna föllnu bankanna. Þessir vextir verðir aldrei greiddir. Samkvæmt því hafi viðskiptajöfnuðurinn án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð reynst neikvæður um 14 milljarða króna samanborið við 16,7 milljarða króna á fyrsta fjórðungi ársins. Viðskiptajöfnuður án áhrifa gömlu bankanna sé því óhagstæður um 3,6% af landsframleiðslu (VLF).

Það þýði að viðskiptajöfnuðurinn þurfi að vera hagstæður um 3,8% af VLF á seinni helmingi ársins til að nýbirt spá Seðlabankans gangi eftir Spáin gerir ráð fyrir að viðskiptajöfnuður án innlánsstofnana í slitameðferð hafi verið neikvæður á síðasta ári, verði lítillega jákvæður á árinu sem líður en verði neikvæður um 1-2% af landsframleiðslu á næsta og þarnæsta ári.

„Að okkar mati eru ofangreindar reiknikúnstir ekki til þess fallnar að varpa ljósi á raunverulega stöðu landsins og má velta því fyrir sér hvers vegna Seðlabankinn gengur ekki skrefið til fulls og leiðréttir einnig fyrir áhrifum þess þegar gömlu bankarnir komast í eigu kröfuhafa (sem mun gerast fyrr eða síðar). Þegar það verður gert þá munu eigendur þrotabúanna fá umtalsverðar innlendar eignir í sínar hendur (erlenda skuldastaða landsins versnar sem því nemur) og fá greiddan arð og vexti af þeim fjármunum (sem hefur neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð landsins). Eitt augljósasta dæmið um þetta er t.a.m. hagnaður Arion banka og Íslandsbanka á síðasta ári og fyrri hluta þessa árs, sem rennur að stærstum hluta í hendur erlendra kröfuhafa föllnu bankanna þegar uppgjöri þeirra hefur verið lokið,“ skrifar deildin.