Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir ekki reynt að fegra stöðu Íbúðalánasjóðs í ársreikningi 2012 eins og skilja megi í umfjöllun Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem birtist í gær. Seðlabankinn gagnrýnir breytt mat sjóðsins á mismun á gangvirði eigna og skulda í ársreikningum. Við breytta matið lækkar misvægi eigna og skulda úr 201 milljarði króna í árslok 2011 í 74 milljarða króna.

„Þetta er skýring í ársreikningi sem er ekki hluti af efnahagsreikningi Íbúðalánasjóðs. Henni er ætlað að sýna á hvaða verði eignir og skuldir væru yfirteknar ef það yrði gerð tillaga um að einhver tæki við rekstri Íbúðalánasjóðs undir nýrri kennitölu og færði við það skuldir og eignir úr sjóðnum. Þessi breytta framsetning er í samræmi við reikniskilastaðla,“ segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið í dag.