Reiknistofa bankanna (RB) hefur undirritað samning við Tölvumiðlun um innleiðingu H3 heildarlausnar í mannauðsmálum. Stefnt er að því að innleiða lausnina vorið 2014, að því er fram kemur í tilkynningu.

Að sögn Herdísar Pálu Pálsdóttur, mannauðsstjóra RB, mun H3 nýtast vel til að halda utan um fjölbreytta starfsemi mannauðs- og launamála. Sjálfsafgreiðslugáttir lausnarinnar leyfa stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækisins, sem eru um 200 talsins, að afgreiða sig sjálf um mörg mál og minnka þar með álag á mannauðssviðinu sem um munar. Herdís Pála er mjög kunnug H3 heildarlausninni þar sem hún innleiddi lausnina einnig árið 2007, þá sem mannauðsstjóri hjá BYR Sparisjóð.

Í tilkynningunni segir að Art Schalk, sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs Tölvumiðlunar, sé líka ánægður með samninginn. RB bætist nú í hóp ríflega 500 fyrirtækja sem nýta sér alíslenskan hugbúnað við stjórnun mannauðsmála, allt frá ráðningu til starfsloka.

Reiknistofa bankanna hf. er í eigu helstu fjármálafyrirtækja landsins, þar á meðal banka, sparisjóða og kortafyrirtækja. Fyrirtækið var stofnað 1973 sem sameignarfélag en var breytt í hlutafélag í janúar 2011. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gær er viðtal við Friðrik Þór Snorrason, forstjóra Reiknistofu bankanna. Áskrifendur geta nálgast blaðið allt hér að ofan undir liðnum tölublöð .