VÍS hefur eftir útboð samið við Reiknistofu Bankanna hf. (RB) um að annast alrekstur á öllum miðlægum tölvukerfum félagsins til næstu fimm ára. Samningurinn nær m.a. til  reksturs sýndarnetþjóna, gagnaafritunar, netlags, eldveggja, og öryggismála auk þess sem hann felur í sér þá nýjung að VÍS fær sjálfsafgreiðslu að tölvuskýsumhverfi RB sem einfaldar daglegan rekstur og ferla í hugbúnaðarþróun.

Haft er eftir Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur, forstjóra VÍS, í tilkynningu að samningurinn við RB tryggi félaginu aukið rekstraröryggi og sveigjanleika í rekstri.

„Með því að útvista þessari þjónustu mun VÍS lækka UT kostnað sinn til lengri tíma og getur auk þess einblínt enn frekar á kjarnastarfsemi sína sem er tryggingastarfsemi.   Með samningi við RB fer VÍS í samstarf við aðila sem veitir tækniþjónustu  sem er sérsniðin að þörfum og kröfum fjármála- og tryggingafyrirtækja,“ segir hún.