Efnahags- og viðskiptaráðherra birti ekki samþykki sitt fyrir gjaldeyrisreglum Seðlabankans fyrr en í október sl. og því geta þær ekki talist gildar fyrr en þá. Núverandi ráðherra hefur augljóslega misskilið þá gagnrýni sem þegar hefur komið fram um þetta mál.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Reimari Péturssyni, hrl. vegna ummæla Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, á Alþingi í dag þar sem Árni Páll svaraði spurningum er varðar birtingu gjaldeyrisreglna Seðlabankans.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Reimar skrifað grein um gjaldeyrisreglur Seðlabankans í nýjasta tölublað Lögmannablaðsins sem kemur út í desember næstkomandi. Reimar segir að gjaldeyrisreglurnar hafi ekki verið réttilega birtar þangað til í október síðastliðnum og þar með hafi þær verið óskuldbindandi fyrir þann tíma, þar sem samþykki ráðherra sem var skilyrði fyrir gildistöku reglnanna var ekki réttilega birt fyrr en þá að hans mati.

Yfirlýsing Reimars er hér birt óbreytt:

„Í ræðustól á Alþingi í dag gerði Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra lítið úr gagnrýni sem ég hef sett fram að birting reglna Seðlabanka Íslands sem fela í sér svonefnd „gjaldeyrishöft“ standist ekki. Rökstuðningur Árna Páls var með öllu óskiljanlegur og í litlum tengslum við þá gagnrýni sem ég setti fram.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um gjaldeyrismál getur Seðlabankinn einvörðungu sett þessar reglur með „samþykki efnahags- og viðskiptaráðherra“. Af þessu leiðir að reglur Seðlabankans geta ekki talist gildar nema þetta samþykki ráðherrans hafi verið birt. Það er þetta samþykki sem hvergi finnst í Stjórnartíðindum og finnist það ekki þá geta reglurnar ekki öðlast gildi. Þetta leiðir af 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað og 29. gr. stjórnarskrárinnar.

Af orðum ráðherrans er greinilegt að hann hefur misskilið þessa gagnrýni. Í ræðustól lét hann þess getið að ráðuneytið hefði kannað málið en komist að því að reglur Seðlabankans hefðu verið birtar. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli um þetta. Það er samþykki ráðherrans sem á eftir að birta, ekki reglur Seðlabankans.

Rétt er að geta þess að í auglýsingu frá 26. okt. s.l. kemur fram að ráðherra hafi veitt samþykki sitt við framlengingu reglna Seðlabankans. Það er í fyrsta skipti sem fram kemur í Stjórnartíðindum, að því er best verður séð, að slíkt samþykki hafi verið veitt. Samþykkið sjálft er hins vegar ekki birt. Það má því jafnvel efast enn í dag.

Að öðru leiti vísa ég til greinar eftir mig sem mun birtast í Lögmannablaðinu í desember n.k.“