„Þetta er eins og við var að búast. Maður fagnar því auðvitað ekki að verið sé að höfða mál. En svo gætt sé sanngirni þá tel ég að við séum með góðan málstað og eigum ágætar sigurlíkur. Þá er langur vegur frá því þetta mál hefst, hverjar sem verða lyktir þess, og þar til íslenska ríkið yrði mögulega skylt til að greiða fjármuni í framtíðinni. Þar eiga íslenskir dómstólar lokaorðið,“ segir Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður.

Reimar Pétursson, hrl.
Reimar Pétursson, hrl.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Eftir að þjóðin hafnaði Icesave-samningunum í vor og ýmsir vöruðu við því ef málið færi fyrir EFTA-dómsstólinn. Þá sagði Reimar áhættuna við dómstólaleiðina ofmetna, sérstaklega með hliðsjón af þeirri áhættu sem fólst í samningunum sem þá voru í boði.

Reimar segir í samtali við Viðskiptablaðið nú í kjölfar þess að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, ákvað að flytja Icesave-málið fyrir dómstóla, að horfa verði á niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslunni í vor í samræmi við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir.

„Við verðum að horfa til allra þátta sem tengjast þessu. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að ákvörðunin á sínum tíma hafi verið röng. Margt hefur gengið mun betur en haldið var fram að yrði raunin ef samningunum yrði hafnað,“ segir hann.