Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir að dómnefnd, sem metur hæfni umsækjenda um stöðu Hæstaréttardómara ekki geta byggt niðurstöður sínar á kynferði umsækjenda.

Í grein í Morgunblaðinu í dag svarar Reimar grein, sem Ragnar Aðalsteinsson skrifaði í vikunni, þar sem Ragnar gagnrýndi nefndina fyrir að hafa metið Karl Axelsson hæfastan umsækjenda og þar með horft framhjá Ingveldi Einarsdóttur.

„Gagnrýni Ragnars stenst ekki. Dómnefndin getur ekki byggt niðurstöður sínar um hæfni fólks á kynferði. Slíkt væri andstætt stjórnarskrá. Þá getur skipun karla í dómnefndina ekki leitt til ógildis ákvarðana hennar, þótt gagnrýna megi ráðslagið. Slíkt væri andstætt réttmætum væntingum og réttaröryggi þess eða þeirra sem væru taldir hæfastir í hvert sinn,“ segir í grein Reimars.

Segir hann jafnframt að samkvæmt gildandi lögum sé skylt við embættisveitingar - eftir að karl og kona hafa verið álitin jafnhæf - að taka konuna fram yfir karlinn séu færri konur fyrir í fleti. Konum í Hæstarétti mui því fjölga þegar fram í sækir.

„Vísast mun þessi fjölgun kvenna auka traust líkt og Ragnar heldur fram. Hinu má þó ekki gleyma að traust getur rýrnað séu aðrir en þeir hæfustu valdir til dómarastarfa,“ segir Reimar að lokum.