Hversu fljótt Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu veltur á því hversu miklar kröfur ríkið gerir um undanþágur í aðildarviðræðum.

Þetta hefur Dow Jones fréttaveitan eftir Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar en Svíar taka við forystu í ESB um næstu mánaðarmót til áramóta en Reinfeldt hélt í gær blaðamannafund í Stokkhólmi í tilefni þessa.

„Það hefur mikið verið rætt um flýtimeðferð ákveði íslensk stjórnvöld að sækja um,“ sagði Reinfeldt en hann lagði þó áherslu á að Ísland væri þegar stór þátttakandi í Evrópusamstarfinu í gegnum EES samninginn.

Reinfeldt sagði þó að ekkert væri hægt að segja til um flýtimeðferð á umsókn Íslendinga. Hann sagði að íslensk stjórnvöld hefðu mikið um það að segja hversu hratt aðildarviðræðurnar gengju og gætu flýtt fyrir með því að „fara ekki fram á sérmeðferð í viðræðunum, til að mynda varðandi sjávarútvegsmál,“ sagði Reinfeldt.

Fram kemur í frétt Dow Jones að íslensk stjórnvöld stefni að því að sækja um aðild að ESB í þeirri von að koma jafnvægi á hagkerfi landsins. Hins vegar þyki ljóst að Íslendingar muni ekki gefa eftir yfirráð sín af sjávarauðlindum.