Miklar sveiflur hafa verið á íslenska hlutabréfamarkaðnum undanfarin misseri. Á árinu 2015 hækkaði Úrvalsvísitalan (OMXI8) um ríflega 43% í fyrra tók vísitalan dýfu og lækkaði um tæplega 10%. Að teknu tilliti til arðgreiðslna hefur Úrvalsvísitalan (OMXI8GI) hækkað um ríflega 9% frá áramótum.

OMXI8 úrvalsvísitalan samanstendur af átta fyrirtækjum á íslenskum hlutabréfamarkaði en það eru Hagar, HB Grandi, Icelandair Group, Marel, N1, TM, Sjóvá og VÍS. Níu önnur félög eru á markaði en það eru Eik, Eimskip, Fjarskipti (Vodafone), Nýherji, Reitir, Reginn, Síminn, Össur og Skeljungur.

Kodak-móment

Markaðurinn það sem ef er þessu ári hefur litast af miklum breytingum hjá tveimur af stóru félögunum — Icelandair Group og Marel.

Fyrir opnun markaða 1. febrúar sendi Icelandair Group frá sér tilkynningu, þar sem kom fram að gert væri ráð fyrir EBITDA fyrirtækisins, hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta, yrði lægri á þessu ári en gert hefði verið ráð fyrir eða 140 til 150 milljónir dollara. Fyrir þann tíma var gert ráð fyrir að EBITDA yrði 210 milljóna dollara á árinu. Þessi tilkynning olli miklum titringi á markaðnum og féll gengi bréfa í félaginu skart. Um síðustu áramót var gengið um 23 en á föstudaginn var stóð það í 14,25 sem þýðir að gengið hefur lækkað um 38% að teknu tilliti til arðgreiðslu.

Vissulega hefur Icelandair Group verið kljást við ýmsa rekstrarerfiðleika en þó fyrst og síðast hefur aukin samkeppni haft mikil áhrif á rekstur félagsins. Stundum hefur verið talaði um Icelandair Group hafi átt sitt Kodak-móment í byrjun ársins og er þá verið að vísa til þess að viðskiptamódel félagsins hafi verið orðið úrelt alveg eins og rekstrarmódel Kodak þegar filmurnar urðu úreltar í ljósmyndaheiminum.

Icelandair Group hefur þó að einhverju leyti tekist að bregðast við á jákvæðan hátt. Félagið hefur til að mynda aukið gegnsæi í því hvernig það hyggist laga reksturinn. Þá var í byrjun þessa mánaðar tilkynnt um samstarfssamning sem gerður hefur verið við lággjaldaflugfélagið JetBlue og verður fróðlegt að sjá hvernig spilast úr honum.

Rífandi arðsemi hjá mörgum

Kristján Markús Bragason, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að ef skoðað sé hvaða félög hafi  haft áhrif á Úrvalsvísitöluna á þessu ári þá séu það fyrst og fremst Icelandair Group og Marel.

„Icelandair hefur verið að toga vísitöluna niður en Marel hefur verið toga hana upp," segir Kristján Markús. "Hin félögin hafa varla hreyft vísitöluna að nokkru ráði. Heilt yfir hefur markaðurinn gengið mjög vel á þessu ári. Það er rífandi arðsemi hjá mörgum félaganna."

Frá áramótum og þar til á föstudaginn hefur gengi Marel hækkað um 46% að teknu tilliti til arðgreiðslu.

„Marel hefur hefur verið kynna virkilega góð uppgjör og þá ekki síst miðað við það hvernig ástandið var hjá því félagi fyrir ekki svo mörgum árum," segir Kristján Markús.

Marel hefur meðvind

Undir lok febrúar tilkynnti Marel að MSD Partners væri orðið sjöundi stærsti hluthafinn í félaginu. MSD Partners er í eigu Michael Dell, stofnanda og forstjóra tölvufyrirtækisins Dell Technologies.

„Það að útlendingur hafi áhuga á að vera með svona stóra stöðu í félaginu hefur mikil áhrif út á við — það skiptir verulegu máli," segir Kristján Markús. „Marel virðist hafa meðvind í öllu því sem félagið tekur sér fyrir hendur um þessar mundir. Menn hafa mikla trú á stjórnendum félagsins. Það spilar allt með þeim. Ef framleiðsluvísitölur í þeim geira, sem Marel er í, eru skoðaðar þá hafa þær hækkað verulega í Evrópu, sem er helsta markaðssvæði Marel.

Það er hlustað mjög gaumgæfilega á allt sem stjórnendur félagsins segja. Nú sjá þeir fyrir sér vöxt á markaði, sem þeir telja að sé að vaxa um 4 til 6%, og að Marel hafa alla burði til að eigna sér töluvert stóran hluta af þessari aukningu. Það er mjög erfitt að koma auga á eitthvað neikvætt hjá Marel. Áhrif íslensku krónunnar á félagið er óverulegt."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .