Carbon Recycling International (CRI), sem á og rekur metanólverksmiðju í Svartsengi, hefur ákveðið að reisa verksmiðju í Þýskalandi. Verksmiðjan verður byggð í nágrenni þýsku borgarinnar Dortmund við hlið kolaorkuvers, sem er í eigu þýsks orkufyrirtækis. Áætlaður kostnaður við byggingu verksmiðjunnar er um 1,5 milljarðar króna.

Carbon Recycling er aðili að samevrópsku rannsóknarverkefni sem nýlega hlaut styrk upp á 8,6 milljónir evra (1,3 milljarða króna)  úr Horizon2020-sjóðnum. Horizon2020 er stærsti rannsóknar- og nýsköpunarsjóður Evrópusambandsins og hefur hann um 80 milljarða evra (12.300 milljarða króna) til ráðstöfunar á árunum 2014 til 2020.

CRI stendur að verkefninu ásamt orkufyrirtækjunum Mitsubishi Hitachi Power Systems Europe og Hydrogenics. Ráðgjafafyrirtækið I-DEALS er einnig þátttakandi í verkefninu, sem og evrópskir háskólar og rannsóknarstofnanir.

Verkefnið er til fjögurra ára og snýr að þróun, smíði og prófunum á ákveðnu framleiðsluferli. Í grófum dráttum mun nýja verksmiðjan nýta umframorku úr þýska raforkunetinu og koltvísýring sem losnar við orkuframleiðslu í kolaverinu til framleiðslu á metanóli. Þannig eru slegnar þrjár flugur í einu höggi. Nýtt er orka sem annars hefði farið til spillis, koltvíoxíð sem hefði farið út í andrúmsloftið er bundið og til verða verðmæti — metanól, sem er orka sem notuð er sem íblöndunarefni í eldsneyti. Að auki gagnast þetta þeim orkuverum sem losa koltvíoxíð á þann hátt að þau þurfa að kaupa minni kolefniskvóta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .