Bílaumboðið Brimborg hefur sótt um heimild til að reisa háhraða rafhleðslustöð, sem rúmar átta bíla, við Flugvelli 8 í Reykjanesbæ. Um er að ræða háhraða stöð af nýrri og stærri gerð en áður hefur sést á Íslandi að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar.

Gangi leyfisferlið vel má búast við að Brimborg geti opnað stöðina sumarið 2023.

Undirbúningur og hönnun hefur staðið yfir undanfarið ár með umsókn um aðgengi að orku sem hefur verið samþykkt. Hönnun miðar að því að stöðin geti þjónað annars vegar atvinnubílum – s.s. stærri flutningabílum, léttari sendibílum, leigubílum og smárútum - og hins vegar einkabílum íbúa eða ferðamanna á eigin bílum og bílaleigubílum á leið í útleigu og skil frá erlendum og innlendum ferðamönnum.

„Í ljósi markmiða stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum þá er ljóst að fjölga þarf rafhleðslustöðvum á Íslandi þar sem hægt er að hlaða mörg rafknúin ökutæki af öllum gerðum í einu,“ segir Egill.

Tvær aðrar stöðvar í pípunum

Stöðin er fjöltengjastöð og getur orðið allt að 600 kW að stærð með hraðhleðslutengjum fyrir allt að 8 bíla í einu af öllum stærðum og gerðum sem nota nýjasta CCS2 staðalinn. Hún verður opin öllum rafbílaeigendum með einföldu greiðsluappi eða greiðslulykli.

Hluti af raforkunni verður fenginn með sólarorkuveri sem reist verður á þaki þjónustuhúss bílaleigu Brimborgar sem mun draga úr álagstoppum á dreifikerfið.

Brimborg hefur þegar hafið hönnun tveggja annarra sambærilegra háhraða fjöltengja hraðhleðslustöðva með tengimöguleikum fyrir 8 rafknúin ökutæki, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar utan höfuðborgarsvæðsins.

Forsenda fyrir rafknúnum bílaleiguflota

Egill segir að hleðslustöðin sé forsenda þess að hægt sé að hefja umtalsverða útleigu rafknúinna bílaleigubíla. Auk þess geri hún það kleift að hægt verði að ráðast í orkuskipti allra vöruflutninga milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar yfir í rafmagn.

Brimborg er stærst bílaumboða í innflutningi rafknúinna fólks- og sendibíla og hafa um 1.200 rafbílar af sjö bílamerkjum Brimborgar verið nýskráðir á árinu. Þá er rafvæðing þungaflutninga að hefjast hjá Brimborg.

Fljótlega stefnir í að 20 þúsund rafbílar keyri um vegi landsins en til samanburðar eru nærri 300 þúsund bílar í umferð á Íslandi sem ganga á öðrum orkugjöfum.

Ökutækjaleigur á Íslandi reka yfir 25.000 bíla flota til leigu. Egill bendir á að stjórnvöld hafi kallað eftir hraðari orkuskiptum, m.a. hjá ökutækjaleigum landsins.

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefur lagt til við 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið 2023 að leggja til 1 milljarð til að tryggja kaup ökutækjaleiga á hreinorkubifreiðum og 400 milljónir til orkuskipta þungaflutninga.

„En þrátt fyrir skýr markmið stjórnvalda um orkuskipti með það að markmiði að draga úr losun koltvísýrings þá eru enn margir steinar í götu orkuskipta í vegasamgöngum og það á meðal annars við um hleðsluinnviði, bæði við Leifsstöð og ekki síður um landið.

Hægt hefur gengið að byggja upp hraðhleðsluinnviði og ekki síst fyrir nýjustu rafbílana sem koma nú með sífellt stærri rafhlöður og þurfa því meiri hleðsluhraða og eins fyrir væntanlega þungaflutningabíla,“ segir Egill.