"Miðja Suðurlands" er ný 14-18 þúsund fermetra verslunar- og þjónustumiðstöð sem á að rísa við Selfoss á 6 hektara lóð við gatnamót Biskupstungnabrautar og Suðurlandsvegar.

Verkefnið byggir á samstarfi sveitarfélagsins Árborgar og Gatnamóta ehf. en félagið Gatnamót hefur fengið vilyrði um úthlutun lóðarinnar. Hjá Gatnamótum starfa þeir Hallgrímur Óskarsson og Árni Blöndal verkfræðingar en aðspurður segir Árni að jákvæð viðbrögð hafi þegar fengist fyrir lánsfé frá lífeyrissjóðum og bönkum en gert sé ráð fyrir að 70% verksins verði fjármagnað með lánsfé og 30% með eiginfjárframlagi.

Hagkvæmnisútreikningar gera ráð fyrir að fjárfestingin skili sér á 10-15 árum miðað við núverandi forsendur en gert er ráð fyrir töluverðri fjölgun íbúa á svæðinu á næstu tveimur áratugum með bættum samgöngum við Reykjavíkursvæðið, auknum fjölda ferðamanna um Suðurland og aukningu sumarbústaðabyggðar.

Hugmyndin með miðstöðinni er að blanda saman fjórum mikilvægum þáttum: Stórverslunum og smærri verslunum, veglegri þjónustu við ferðamenn, bíla- og eldsneytisþjónustu og svo fjölskyldutengdri afþreyingu.

Árni segir að helst megi bera kjarnann saman við verslunarmiðstöðina Glerártorg á Akureyri og er fullviss um að þörfin sé til staðar. "Ég vil líta svo á að þetta stækki kökuna því þarna verður í boði þjónusta ferðamenn með afþreyingu, matsölu og aðstöðu fyrir hópferðabíla.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.