Fasteignafélagið Reitir tapaði 191 milljón króna á öðrum ársfjórðungi og hefur tapað 1.223 milljónum á fyrri helmingi árs. Félagið hagnaðist um 1.926 milljónir á fyrri hluta ársins 2019. Félagið hyggst auka hlutafé sitt um allt að 200 milljónir hluta og mun greiða út arð í næsta mánuði. Eiginfjárhlutfall félagsins nam 29,5% í lok annars ársfjórðungs en 31,4% á sama tíma árið 2019.

Að teknu tilliti til matsbreytingar dróst rekstrarhagnaður félagsins á fyrri helmingi ársins saman um 73%, úr 5.667 milljónum í 1.532. Fyrir matsbreytingar nam rekstrarhagnaður 3.647 milljónum króna og dróst saman um tæplega 6%.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingar á öðrum ársfjórðungi dróst saman um 10% milli ára og nam 1.742 milljónum króna. Leigutekjur félagsins drógust talsvert saman en rekstrarkostnaður fjárfestingareigna sömuleiðis.

NOI-hlutfall Reitis (e. net operating income) var 59,9% í lok annars ársfjórðungs en 63,2% á sama tíma fyrir ári. Hlutfallið er í raun mælikvarði á hagkvæmni í rekstri hjá leigufélögunum. Það er fundið með því að taka þær leigutekjur sem standa eftir þegar búið er að draga frá nauðsynlegan rekstrarkostnað, sem hlutfall af heildarleigutekjum.

Matsbreytingar á fyrsta ársfjórðungi hafa veruleg áhrif á afkomu félagsins á fyrri hluta árs. Matsbreytingar voru jákvæðar um 20 milljónir á öðrum ársfjórðungi, neikvæðar um 2.115 milljónir á fyrsta fjórðungi en jákvæðar um tæplega 1.800 á fyrri helmingi ársins 2019. Nýtingarhlutfall félagsins hefur lækkað það sem af er ári og nam 94,5% í lok annars ársfjórðungs, en 94,8% á sama tíma fyrra árs.

Leigutap sökum COVID um 300 milljónir

Fram kemur í fjárfestakynningu félagsins að líklegt sé að áhrif af Covid-19 haldi áfram að sýna sig í rekstrinum. Áætlað tekjutap vegna faraldursins á fjórðungnum er ríflega 300 milljónir króna en gert er ráð fyrir að áhrifin verði minni á þriðja og fjórða ársfjórðungi. Enn fremur er sagt að leigutekjur að frátöldum áhrifum faraldursins hafi dregist saman um 0,9% milli ára eða um 49 milljónir króna.

Stærstum hluta af leigugreiðslum frá hótelum frá apríl 2020 og út árið verður frestað. Aðrir aðilar tengdir ferðaþjónustu eru um 3% af heildartekjum félagsins og ekki liggur fyrir hvort Reitir bjóði þeim aðilum upp á frekari aðgerðir. Skrifstofur, iðnaður, matvöruverslanir og hið opinbera er um 55% af heildartekjum félagsins og verður ekki aukinn stuðningur til þeirra vegna Covid-19.

Fram kemur að félagið hefur gætt að lausafjárstöðu sinni meðal annars með sölu eigna, sölu skuldabréfa, frestun afborgana bankalána og aðgengi að lánalínum. Félagið seldi fimm fasteignir á fyrri árshelmingi, andvirði 2.652 milljónir króna.

Lagt verður fram á hlutafjárfundi félagsins, sem á að fara fram 22. september næstkomandi, að auka hlutafé félagsins fyrir allt að 200 milljónum hluta. Miðað við gengi dagsins í dag eru það um níu milljarðar króna. Sá arður sem lá til með að greiða 13. mars 2020 verður greiddur 9. september næstkomandi og mun nema 1,65 krónur á hlut, ríflega milljarður króna.