Reitir fasteignafélag og Reykjavíkurborg hafa gert samkomulag um uppbyggingu á um 440 íbúðum á hinum svokallaða Orkureit, 26.000 fermetra lóð sem teygir sig meðfram Grensásvegi á milli Suðurlandsbrautar og Ármúla. Orkureiturinn er við fyrirhugaðan Borgarlínuás og ný borgarlínustöð verður framan við lóðina. Reitir greina frá þessu í fréttatilkynningu.

Skipulag Orkureitsins mun samkvæmt tilkynningunni vera unnið út frá kröfum BREEAM Communities staðalsins, sem felur í sér að hugað sé að sjálfbærum áherslum frá upphafi skipulagsvinnu og horft til fleiri þátta en alla jafnan er krafist við deiliskipulagsgerð. Reiturinn verði að líkindum fyrsta svæðið í Reykjavík til að hljóta slíka vottun. Skipulag reitsins byggi á vinningstillögu ALARK arkitekta í samkeppni sem haldin var um skipulag reitsins. Tillagan geri ráð fyrir byggð með skjólgóðum og sólríkum inngörðum, sem eru að hluta til opnir og tengdir saman með göngu- og hjólastígum, sem jafnframt binda saman nærliggjandi svæði og hverfi ásamt því að veita greiðan aðgang að nýrri borgarlínustöð.

Uppbygging á Orkureitnum verði í samræmi við markmið og í anda húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar þannig að um 15% íbúða á lóðinni verði leiguíbúðir, íbúðir Félagsbústaða, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða.

Skipulagið er nú í samráðsferli og fer í formlega auglýsingu innan skamms. Gert er ráð fyrir að uppbygging á reitnum geti hafist á fyrri hluta ársins 2022.

Rafmagnsveituhúsið fær nýtt hlutverk

„Deiliskipulagstillagan miðar að því að iðnaðarhúsnæði að Ármúla 31 og bakhús á miðri lóð víki fyrir 4-8 hæða nýbyggingum í borgarmiðuðu skipulagi. Tillagan gerir þannig ráð fyrir 40.872 m2 af íbúðarhúsnæði, um 440 íbúðum og 6.179 m2 af atvinnuhúsnæði. Samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu verður heimilað byggingarmagn ofanjarðar 47.051 m2.

Gamla Rafmagnsveituhúsið fær virðingarsess á lóðinni, en Reitir hafa undanfarið veitt heilbrigðisyfirvöldum húsið að láni og þannig lagt sitt á vogarskálarnar í baráttunni við COVID-19 faraldurinn hér á landi,“ segir í tilkynningu Reita.

„Þetta svæði býður upp á einstakt tækifæri fyrir borgina til að búa til spennandi og skemmtilega íbúabyggð meðfram Borgarlínunni sem mun ganga um Suðurlandsbraut. Þetta er nýr þróunarás borgarinnar frá austri til vesturs. Íbúar munu njóta þess að vera í nálægð við Laugardalinn og fjölbreytta þjónustu og verslun í sínu nánasta umhverfi," er haft eftir Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, í tilkynningu Reita.

„Við hjá Reitum höfum lagt mikið upp úr vönduðu skipulagi reitsins og höfum því gengið töluvert lengra en lög og reglugerðir gera ráð fyrir, meðal annars í þá átt að hugað sé að aðlögun að loftlagsbreytingun, sjálfbærri orku- og vatnsnýtingu, efnisvali og ofanvatnslausnum. Með því að skoða sérstaklega vel hönnun húsa með tilliti til vinds, sólar og umferðarhljóðs viljum við skapa húsnæði sem stenst kröfur bæði í nútíð og framtíð."Hverfið er einstaklega vel staðsett, meðal annars við Borgarlínuásinn. Það er í nálægð við alla þá þjónustu sem Múlarnir og Skeifan bjóða upp á ásamt góðu aðgengi að útivistarsvæði í Laugardal,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, í tilkynningu fasteignafélagsins.