Reitir fasteignafélag hf. hefur greitt lokagreiðslu tveggja lána við Hypotheken-Bank Frankfurt AG að fjárhæð 85 milljónum evra, sem jafngildir um 13 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Uppgreiðsla lánanna er að mestu leyti fjármögnuð með nýju langtímaláni frá Íslandsbanka að fjárhæð 11 milljarða króna, en samningar þess efnis voru undirritaðir í höfuðstöðvum bankans þann 20. október síðastliðinn. Fram kemur í tilkynningunni að uppgreiða erlendu lánanna sé fyrsta skrefið í heildarendurfjármögnun Reita.

Í júní 2013 var undirrituð viljayfirlýsing um kaup Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildis lífeyrissjóðs og Eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka á nýju hlutafé í Reitum að fjárhæð 12 milljarðar króna og nýjum verðtryggðum skuldabréfaflokki útgefnum af félaginu að fjárhæð 25 milljarðar króna. Á sama tíma var gert samkomulag við Íslandsbanka um allt að 14 milljarða lánveitingu til félagsins.

Heildarfjármögnun Íslandsbanka gagnvart Reitum verður því um 25 milljarðar þegar endurfjármögnun félagsins er lokið. Stefnt er að því að heildarendurfjármögnun félagsins verði lokið fyrir árslok 2014. Horft er til þess að skrá hlutafé félagsins í Kauphöll Íslands fyrrihluta ársins 2015, ef þessar forsendur ganga eftir.

Uppgreiðsla lánanna sem greidd voru upp í dag varð heimil eftir að niðurstaða fékkst í viðræður við Seðlabanka Íslands og erlenda bankans vegna lánanna. Þær viðræður höfðu tekið langan tíma, en Seðlabankinn hóf í lok ársins 2012 rannsókn á því hvort viðaukar umræddra lánasamningana hefðu brotið gegn ákvæðum laga um gjaldeyrismál. Sátt náðist í málinu í júní 2013 og síðan þá hefur verið unnið að úrlausn sáttarinnar með erlenda bankanum.