Hagnaður fasteignafélagsins Reita féll úr 3,32 milljörðum króna í 1,95 milljarða króna milli áranna 2019 og 2020. Félagið áætlar að leigutekjur hafi fallið um 935 milljónir á árinu 2020 vegna heimsfaraldursins og og muni lækka um 750 milljónir á þessu ári að sömu sökum, að því er fram kemur í nýbirtu uppgjöri Reita.

Í ársreikningnum segir að mat fasteignasafns félagsins sé um 1,55 milljörðum króna lægra en ella vegna væntinga stjórnenda um samdrátt í tekjum á næstu misserum vegna heimsfaraldursins.

Félagið leggur til að 778 milljónir króna verði greidd í arð vegna ársins 2020. Reitir fóru í ríflega fimm milljarða króna hlutafjáraukningu í október , meðal annars til að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins.

Tekjur Reita drógust saman um ríflega milljarð króna á síðasta ári, úr 11,7 milljörðum í 10,7 milljarða króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu lækkaði úr 7,67 milljörðum í 6,75 milljarða króna. Matsbreyting nam 2,2 milljarða árið 2020 miðað við 2,35 milljarða árið 2019. Rekstrarhagnaður lækkar því úr 10 milljörðum í 9 milljarða á milli ára.

Félagið áætlar að tekjur ársins 2021 verði 11,35 til 11,55 milljarðar króna og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði 7,25 til 7,45 milljarðar króna. Reitir búast við að nýting verði sambærileg við fyrra ár.

Fasteignasafn félagsins er metið á 152,8 milljarða króna miðað við 149,1 milljarð fyrir ári. Eigið fé nam 52,8 milljörðum í árslok 2020 og skuldir 130,7 milljörðum króna.

Faraldurinn snertir viðskiptavini á ólíkan hátt

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, er sáttur við afkomuna miðað við aðstæður. „Grunnrekstur Reita er sem áður stöðugur, góður gangur var í útleigu á árinu 2020 og nýting ágæt. Efnahagsleg áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar setja þó svip sinn á rekstrarniðurstöðu ársins. Leiðrétt fyrir áhrifum Covid-19 væri rekstrarhagnaður sambærilegur við árin 2018 og 2019. Heimsfaraldurinn snerti ólíka kima atvinnulífsins með mismunandi hætti og jókst t.d. sala í Kringlunni milli ára og greiðslugeta yfirgnæfandi meirihluta leigutaka hélst óskert. Reitir hafa komið til móts við leigutaka sem glímdu hvað mest við afleiðingar faraldursins og hefur samstarf um úrvinnslu verið gott,“ segir Guðjón.

Þá bendir hann á að félagið vinni að nokkrum stórum þróunarverkefnum. „Skipulagsvinnu á Orkureit og á uppbyggingarsvæði Reita í landi Blikastaða í Mosfellsbæ er að mestu lokið og verkefnin eru bæði í samráðsferli. Á Kringlusvæðinu er fyrirhugað að þróa öflugan borgarkjarna með alls um 1.000 íbúðum á um 13 hektara svæði. Yfirstandandi uppfærsla á aðalskipulagi Reykjavíkur er forsenda þeirra áforma. Á árinu 2020 var unnið að deiliskipulagningu fyrsta áfanga svæðisins, um 350-400 íbúðum, og er skipulagið nú í lögbundnu samráðsferli,“ segir hann.

Hefja samtal um höfuðstöðvar Icelandair

Stærsta fjárfesting Reita á árinu var kaup á skrifstofum Icelandair á Nauthólsvegi 50 af Icelandair. en flugfélagið mun áfram leigja húsnæðið næstu þrjú árin . Guðjón segir Reiti áforma að hefja samtal við Reykjavíkurborg um skipulagsmál svæðisins á næstu vikum. Þá gengu Reitir frá sölu á þróunarverkefninu við Hafnarbraut 17-19 í Kópavogi en þar er hægt að byggja tæplega 50 íbúðir. Félagið seldi einnig Austursíðu 2 á Akureyri, hlut Reita í Eiðistorgi á Seltjarnarnesi og Furuvelli 17 á Akureyri á árinu.

„Efnahagur félagsins er sterkur í árslok. Lánaþekja er 58% eftir hlutafjáraukningu í október og verðmat eigna hóflegt. Stór skref voru stigin í fjármögnun Reita á árinu en félagið gaf út skuldabréf og tók bankalán fyrir um 17 milljarða til endurgreiðslu á skuldum og meðalkjör verðtryggðra skulda lækkuðu um rúma 40 punkta á árinu,“ segir Guðjón.