Nokkuð lítil velta var á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, um 3 milljarðar króna. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,05% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 3.305,23 stigum.

Mest velta var með bréf Marel, en viðskipti með bréfin námu 750 milljónum króna og hækkaði gengi bréfa félagsins um tæpt eitt prósent. Gengi bréfa fasteignafélagsins Reita hækkaði mest allra félaga á markaði, um 1,76%. Sjóvá hækkaði um rúmt prósent.

VÍS lækkaði mest allra félaga, um 1,5% í 150 milljóna viðskiptum. Arion banki lækkaði um rúmlega eitt prósent í 570 milljóna króna viðskiptum. Kvika banki lækkaði um 0,8% í 320 milljóna króna viðskiptum.

Á First North markaðnum lækkaði flugfélagið Play um 1,7% í 135 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa Solid Clouds hækkaði um 29% í 3 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa Hampiðjunnar hækkaði um 0,8% í 16 milljóna króna viðskiptum.