*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 14. maí 2018 17:02

Reitir hagnast um 1,2 milljarða

Leigutekjur félagsins námu um 2,8 milljörðum króna.

Ritstjórn
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita
Haraldur Guðjónsson

Reitir fasteignafélag hagnaðist um 1,2 milljarða á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Leigutekjur félagsins námu um 2,8 milljörðum og jukust um 4,4% frá fyrra ári.
Matshækkun fjárfestingaeigna hækkaði í 1,3 milljarða úr 900 milljónum samanborið við árið í fyrra.

Rekstarhagnaður (NOI) ársins var 1,9 milljarðar en hann var 1,8 milljarðar árið 2017. Eigið fé í lok fyrsta ársfjórðungs var 49,4 milljarða og var eiginfjárhlutfallið 34,8%. Rekstarkostnaður fjárfestingareigna nam 735 milljónum og jókst um 6,5% milli ára. Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita segir rekstrarniðurstöðu fyrsta árs vera í takti við áætlanir.

„Á undanförnum vikum hefur verið unnið að undirbúningi kaupa á öllu hlutafé Vínlandsleiðar ehf. en gengið var frá kauptilboði undir lok aprílmánaðar. Umfang kaupanna er 5,9 milljarða en um er að ræða rúmlega 18.000 fermetra af vönduðu húsnæði í fullri útleigu, að mestu leiti til opinberra aðila. Leigutekjur á ársgrunni nema um 440 milljónum og er meðaltími leigusamninga um 13,5 ár. Afhending eignanna fer fram þegar fyrirvörum vegna kaupanna hefur verið aflétt og er þá áætlað að kaupin hækki rekstrarhagnað (NOI) Reita um 350 milljónir á ársgrundvelli." er haft eftir Guðjóni.

Hann segir jafnframt að undirbúningur að þróun á Kringlusvæðinu miðar vel áfram. En stefnt er að breytingu á aðalskipulagi og svo verður svæðið deiliskipulagt í áföngum.

Á Heklureitnum stendur „gamla sjónvarpshúsið“ en Reitir hyggjast stækka það hús og endurbyggja fyrir hótelrekstur. Nú hefur skipulagsráð samþykkt deiliskipulag fyrir reitinn og þegar borgarráð afgreiðir skipulagið fer það í auglýsingarferli. Reitir gera ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á næsta ári. er fram kemur í fréttatilkynningu.

Stikkorð: Uppgjör Reitir