Reitir fasteignafélag hagnaðist um 1.374 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 996 milljónir á sama tímabili í fyrra. Hreinar leigutekjur jukust um 22% á milli ára og námu 2,4 milljörðum. Rekstrarhagnaðar Reita var um 4,4 milljarðar, þar af var helmingur tilkominn vegna matsbreytinga.

„Eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði er góð, sér í lagi eftir verslunar- og iðnaðarhúsnæði. Útleiguhlutfall félagsins var rúmlega 97% yfir tímabilið, ef tekið er tillit til eigna í endurbótaferli, annars í kringum 95%,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, í uppgjörstilkynningu .

Reitir hækkuðu horfur fyrir árið, einkum vegna verðbólgu, og gerir nú ráð fyrir að tekjur verði á bilinu 13.000-13.250 milljónir á árinu og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði um 8.750-9.000 milljónir.

Samningur við Sambíó og breytingar í Holtagörðum

Reitir hafa unnið að því að „gjörbreyta“ þriðju hæðinni í Kringlunni með endurnýjuðu veitinga- og afþreyingarsvæði. Í tilkynningunni segir að fasteignafélagið hafi undirritað samning við Sambíóin um stækkun og endurbætur. Þá sé verið að ganga frá samningum við afþreyingafyrirtæki og veitingaaðila.

Jafnframt kemur fram að unnið sé að breytingum í Holtagörðum á verslunarrýmum og sameign. Viðræður við núverandi og nýja leigutaka eru sagðar langt á veg komnar.

Sjá einnig: Byggja 90 þúsund fermetra á Blikastöðum

Reitir undirrituðu samkomulag um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í landi Blikastaða í Mosfellsbæ í byrjun mánaðarins. Um er að ræða í kringum 90 þúsund fermetra atvinnuhúsnæðis á um 15 hektara landsvæði. Samkomulagið gerir ráð fyrir að gatnaframkvæmdir geti hafist vorið 2023 og að framkvæmdir fyrsta áfanga hefjist í kjölfarið. Gert er ráð fyrir að uppbygging geti tekið um tíu ár „og verði mikilvægur hlekkur í verðmætasköpun til handa hluthöfum næsta áratuginn,“ segir Guðjón.