Hagnaður fasteignafélagsins Reita á fyrsta fjórðungi ársins 2016 nam 919 milljónum króna. Það er tæplega 100 milljóna króna aukning frá sama tímabili árið á undan. Hagnaður á hlut nam ríflega 1,2 krónum. Þetta kemur fram í ársfjórðungsreikningi fyrirtækisins sem var birtur í dag.

Leigutekjur jukust milli ára um 130 milljónir sem er 6% aukning. Þær námu þá 2,2 milljörðum króna. Að rekstrarkostnaði frádregnum námu hreinar leigutekjur 1,6 milljarði króna en þær jukust um 60 milljónir milli ára. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir tekjuskatt of fjármunatekjur og -gjöld nam þá 1,5 milljörðum króna.

Eignir félagsins námu samtals 115 milljörðum króna. Milli ára jukust eignirnar um 2,1 milljarð króna. Af þessum eignum eru 68,8 milljarðar króna skuldir og 46,1 milljarður króna eigið fé. Það gefur eiginfjárhlutfall upp á rúmlega 40%. Eigið fé dróst lítillega saman meðan skuldir jukust um 2 milljarða króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam tæpum 1,3 milljörðum króna. Í byrjun árs nam handbært fé fyrirtækisins 582 milljónum króna en á tímabilinu jókst handbært fé um tæplega 1,7 milljarða króna. Í lok tímabils nam handbært fé því 2,26 milljörðum króna miðað við að árið á undan hafði það verið tæpar 800 milljónir.