Reitir II, sem áður hét Landsafl, tapaði 627 milljónum króna á síðasta ári. Rekstarhagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði nam 1.129 milljónum króna og lækkaði um rúmlega 200 milljónir króna á milli ára. Reitir II töpuðu 4,5 milljörðum króna á árinu 2009. Reitir II eru í eigu Reita Fasteignafélags, sem áður hét Landic Property. Stærstu eigendur Reita eru dótturfélög Arion banka og Landsbanka Íslands.

Heildareignir Reita II voru 21,1 milljarður króna í lok síðasta árs og höfðu rýrnað um 102 milljónir króna á árinu. Eigið fé félagsins var 3,2 milljarðar króna á sama tíma. Reitir II á og rekur 18 fasteignir á Íslandi. Reitir II er með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands.