Festi hefur samþykkt kauptilboð frá Reitum í fjórar fasteignir félagsins. Söluverð fasteignanna er 4.150 milljónir króna og áætlaður söluhagnaður er 997 milljónir, að því er kemur fram í tilkynningu Festi. Um er að ræða eftirfarandi fasteignir þar sem verslanir Krónunnar eru til húsa:

  • Austurvegur 1-5, Selfossi (50% eignarhlutur)
  • Dalbraut 1, Akranesi
  • Háholt 13-15, Mosfellsbæ
  • Hafnargata 2, Reyðarfirði

Salan er sög hluti af stefnu Festi um sölu fasteigna þar sem eigin starfsemi félagins er undir ákveðnu hlutfalli í viðkomandi eign. Viðskiptin eru þó háð samþykki opinberra aðila og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Samhliða sölunni mun Krónan framlengja leigusamninga sína til 15 ára og leggur áherslu á að salan mun engin áhrif hafa á rekstur Krónunnar á þessum stöðum. Í tilkynningu Reita segir að Krónan standi fyrir tæplega 50% af leigutekjunum í fasteignunum fjórum.

Aðrir leigutakar eru m.a. Rúmfatalagerinn, Mosfellsbakarí, apótek, Sveitafélagið Fjarðabyggð, Pizzan, Penninn, Mannvit og Lindex. Leigutekjur á ársgrunni nema um 320 milljónir króna og er meðaltími leigusamninga tæp 10 ár. Kaupin leiða til þess að áætlaður rekstrarhagnaður (NOI) Reita hækkar um 250 milljónir á ársgrundvelli.