*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 30. júní 2021 17:31

Reitir kaupa fjórar fasteignir af Festi

Kaupverð fasteignanna er 4.150 milljónir króna og áætlaður söluhagnaður Festi er 997 milljónir.

Ritstjórn
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, og Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi

Festi hefur samþykkt kauptilboð frá Reitum í fjórar fasteignir félagsins. Söluverð fasteignanna er 4.150 milljónir króna og áætlaður söluhagnaður er 997 milljónir, að því er kemur fram í tilkynningu Festi. Um er að ræða eftirfarandi fasteignir þar sem verslanir Krónunnar eru til húsa:  

  • Austurvegur 1-5, Selfossi (50% eignarhlutur)
  • Dalbraut 1, Akranesi
  • Háholt 13-15, Mosfellsbæ
  • Hafnargata 2, Reyðarfirði

Salan er sög hluti af stefnu Festi um sölu fasteigna þar sem eigin starfsemi félagins er undir ákveðnu hlutfalli í viðkomandi eign. Viðskiptin eru þó háð samþykki opinberra aðila og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Samhliða sölunni mun Krónan framlengja leigusamninga sína til 15 ára og leggur áherslu á að salan mun engin áhrif hafa á rekstur Krónunnar á þessum stöðum. Í tilkynningu Reita segir að Krónan standi fyrir tæplega 50% af leigutekjunum í fasteignunum fjórum.

Aðrir leigutakar eru m.a. Rúmfatalagerinn, Mosfellsbakarí, apótek, Sveitafélagið Fjarðabyggð, Pizzan, Penninn, Mannvit og Lindex. Leigutekjur á ársgrunni nema um 320 milljónir króna og er meðaltími leigusamninga tæp 10 ár. Kaupin leiða til þess að áætlaður rekstrarhagnaður (NOI) Reita hækkar um 250 milljónir á ársgrundvelli.