Reitir fasteignafélag hf. hefur ákveðið að ganga til samninga við eigendur Vínlandsleiðar ehf., um kaup Reita á félaginu sem á rúmlega 18 þúsund leigufermetra. Félagið á flest húsin við götuna Vínlandsleið í Grafarholti, það er númer 2-4, 6-8, 12-14 og númer 16, auk Norðlingabrautar 14.

Heildarvirði kaupanna er samtals 5.900 m.kr. og verður að fullu fjármagnað með handbæru fé, lánsfé og yfirtöku áhvílandi skulda.

Eignirnar eru í útleigu til 12 aðila með 100% útleiguhlutfall. 82% leigutekna eru við fimm opinbera aðila eða aðila sem eru á fjárlögum ríkisins en þeir eru: Sjúkratryggingar Íslands, Matís ohf., Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Lyfjastofnun og Fjölmennt.

Leigutekjur á ársgrunni nema um 440 milljónum króna og er meðaltími leigusamninga um 13,5 ár. Leiða kaupin til þess að áætlaður rekstrarhagnaður (NOI) Reita hækkar um 350 milljónir króna á ársgrundvelli.

Afhending eignanna mun fara fram þegar fyrirvörum vegna viðskiptanna hefur verið aflétt en fyrirvarar eru gerðir um niðurstöður áreiðanleikakannana, samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki stjórnar Reita á kaupunum.