Reitir hafa undirritað 2,3 milljarða króna kaupsamning við dótturfélag Icelandair Group um kaup á 6.500 fermetra skrifstofuhúsnæði að Nauthólsveg 50 sem hýst hefur starfsemi Icelandair Group og dótturfélaga. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Starfsemi flugfélagsins verður áfram í húsinu, en gerður hefur verið leigusamningur við Icelandair til þriggja ára. Reitir eru sagðir munu gera nánari grein fyrir fyrirætlunum sínum varðandi fasteignina til lengri framtíðar í ársuppgjöri félagsins.

Kaupverðið er fjármagnað með lánsfé og handbæru fé. Forsenda kaupverðsins er að áreiðanleikakönnun á fasteigninni leiði ekki til breytinga á því og skal henni lokið fyrir þann 1. mars næstkomandi. Afhending eignarinnar fór fram við undirritun kaupsamningsins. Leiða kaupin til þess að áætlaður rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar (NOI) Reita hækkar um 160 milljónir á ársgrundvelli.