Úrvalsvísitalan lækkaði um hálft prósentustig í eins milljarðs veltu Kauphallarinnar í dag. Fasteignafélagið Reitir lækkuðu mest allra félaga eða um 2,4% í 39 milljóna viðskiptum en félagið mun birta árshlutauppgjör síðar í dag.

Hin tvö fasteignafélögin Eik og Reginn héldu einnig áfram að lækka. Reginn lækkaði um 1,7% í 67 milljóna viðskiptum og Eik lækkaði um 1,1% í 19 milljóna viðskiptum.

Mesta veltan var með bréf Kviku sem lækkuðu um 2,3% í 535 milljóna viðskiptum. Stjórnendur Kviku nýttu áskriftarréttindi og seldu svo hlutabréf fyrir 295 milljónir króna í gær .

Síminn lækkaði um 0,6% í 173 milljóna veltu og standa bréf fjarskiptafélagsins í 6,4 krónum á hlut. Síminn mun birta árshlutauppgjör fyrir annan ársfjórðung á eftir lokun markaða á morgun.