*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 11. febrúar 2020 16:32

Reitir lækkuðu um meira en 3%

Fasteignafélögin leiddu lækkanir í kauphöllinni í dag, en Arion banki hækkaði mest. Marel með yfir þriðjung viðskipta dagsins.

Ritstjórn

Mest lækkun á gengi bréfa eins félags í kauphöllinni var á bréfum fasteignafélagsins Reita, eða um 3,28%, í 174 milljóna króna viðskiptum og fór gengið niður í 73,70 krónur.

Næst mesta lækkunin var á gengi Eikar fasteignafélags, eða um 1,94%, niður í 8,61 krónu, í 135 milljóna króna viðskiptum. Þriðja mesta lækkunin var svo litlu minni, eða 1,92$, en það voru bréf Haga sem fóru þá niður í 51 krónu í einungis 16 milljóna króna viðskiptum.

Lækkun þriðja fasteignafélagsins með atvinnuhúsnæði, Regins var sú fjórða mesta í kauphöllinni í dag, eða um 1,79%, og fór gengið niður í 21,90 krónur í 59 milljóna króna viðskiptum.

Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 2,2 milljörðum, en mestu viðskiptin voru eins og svo oft áður með bréf Marel, eða fyrir 865,3 milljónir króna, en bréf félagsins hækkuðu í þeim um 0,34%, sem var næst mesta hækkunin á bréfum í einu félagi í dag og fór gengið upp í 592 krónur.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Arion banka, eða fyrir 248,8 milljónir króna, en gengi bréfa bankans hækkaði jafnframt mest í viðskiptum dagsins eða um 1,45%, upp í 83,70 krónur. Gengi krónunnar stór svo í stað gagnvart evru og dönsku krónunni, og fæst sú fyrrnefnda nú á 137,44 krónur en sú síðarnefnda á 18,393 krónur.

Af öðrum helstu viðskiptamyntum lækkaði gengi Bandaríkjadals og japanska jensins gagnvart krónunni, lækkaði dalurinn um 0,05%, og fæst hann nú á 125,9 krónur en jenið lækkaði um 0,17%, niður í 1,1454 krónur. Hinar Norðurlandakrónurnar, svissneski frankinn og breska pundið styrktust hins vegar gagnvart krónunni, það síðastnefnda um 0,18%, upp í 162,99 krónur.

Stikkorð: Marel Úrvalsvísitalan Reginn Arion Nasdaq Reitir Eik Kauhöll