Reitir birtu uppgjör sitt fyrir árið 2014 í síðustu viku. Hagnaður fyrir matsbreytingu hækkaði lítillega milli ára, nam 5.984 milljónum króna í fyrra en var 5.869 milljónir árið 2013. Matsbreyting skilaði 1.936 milljónum króna í tekjur í fyrra, en 8.696 millj­ ónum árið áður. „Ég er almennt sáttur við uppgjörið,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Í rekstri sem þessum er lítið um sveiflur og gott uppgjör er uppgjör sem er í takt við áætlanir. En staðan er góð, útleiguhlutfallið er hátt og lítið um vanskil. Arðsemi rekstrarins er vel viðunandi.“ Stjórnendur Reita gera ráð fyrir að félagið fari á markað á fyrri hluta þessa árs. Guðjón segist ekki geta tjáð sig um skráninguna að svo stöddu að öðru leyti en því að enn sé stefnt að því að félagið verði skráð á markað í apríl á þessu ári. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sér um skráninguna.

Fasteignir félagsins eru metnar á gangvirði sem byggir á núvirtu sjóðstreymi einstakra eigna og getur því verið frábrugðið raunverulegu söluvirði. Í ársreikningi Reita kemur fram að matshækkun ársins hafi numið 1.936 milljónum, eins og áður segir. Matshækkun ársins 2013 var mun meiri, eða 8.696 milljónir króna. Samkvæmt stjórnendum Reita eru helstu áhrifaþættir til hækkunar á matinu milli ára væntingar um hærri markaðsleigu en árið á undan, lítillega lægri ávöxtunarkrafa og verðlagsbreytingar. Stærsti áhrifa­ þáttur til lækkunar á matinu tengist verulegri hækkun á fasteignamati fasteigna samstæðunnar milli áranna 2014 og 2015. Þegar rýnt er í reikningana má áætla að virðismat fasteigna Reita hefði hækkað um tæpa fjóra milljarða í stað tveggja í ár ef fasteignamatið hefði haldist óbreytt, en Guðjón vill ekki staðfesta þetta við Viðskiptablaðið. „Þessi breytta aðferð við fasteignamat hefur haft gríðarleg áhrif á okkur, enda hækkaði fasteignamat eigna félagsins um ríflega 20%. Þetta er gert án þess að löggjafinn hafi fjallað nokkuð um málið og mun að óbreyttu þýða að skattar á atvinnulífið munu stórhækka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .