Bréf Reita fasteignafélags hækkuðu mest allra hlutabréfa í Kauphöll Íslands í dag eða um 2,5%. Félagið birti tilkynningu á vef Kauphallarinnar í dag um betri afkomuhorfur vegna lækkunar á fasteignamati í Kringlu. Samtals voru gerð 15 viðskipti með bréf Reita fyrir um 375 milljónir króna.

Samtals voru gerð viðskipti fyrir 2,8 milljarða króna í Kauphöllinni í dag og hækkaði Úrvalsvísitalan um 0,7%. Á eftir Reitum hækkuðu bréf Marels mest eða um 1,1% í viðskiptum fyrir 300 milljónir króna. Þá hækkaði Reginn um tæpt 1% í viðskiptum fyrir 134 milljónir króna.

Mest velta var með bréf í Arion banka eða fyrir 378 milljónir króna en bréfin lækkuðu um tæpt 1% í viðskiptunum. Mest lækkuðu bréf í Össuri eða um 3,4% í viðskiptum fyrir aðeins 10 milljónir króna. Hlutabréf í Eimskip lækkuðu um 2,3% og þá lækkuðu bréf í Icelandair um tæp 2,2%.