Fasteignafélagið Reitir hyggst hækka hlutafé þess um allt að 200 milljóna hluti, eða tæplega níu milljarða króna miðað við markaðsgengi félagsins í dag. Ástæða hlutafjáraukningarinnar er sögð vera til að styrkja eiginfjárstöðu félagsins, auka fjárfestingagetu og til að greiða út arðgreiðslu, sem samþykkt var á aðalfundi í mars.

Stefnt er að því að útboðið fari fram um mánaðamót september og október „eða síðar ef aðstæður krefjast,“ segir í fjárfestakynningu Reita.

Félagið boðar til hluthafafundar þann 22. september á Hilton Reykjavík Nordica þar sem tillaga stjórnar verður lögð fram. Gert er ráð fyrir að nýir hlutir verði boðnir hluthöfum félagsins í forgangsréttarútboði, og að því frágengnu verði þeir boðnir í almennu útboði.

„Að mati stjórnar og stjórnenda Reita eru horfur í efnahagslífinu nú með þeim hætti að ástæða sé til að styrkja eiginfjárstöðu félagsins.

Reitir vilja vera virkur þátttakandi á markaði með atvinnuhúsnæði og telja mikilvægt að auka fjárfestingargetu sína enda telur félagið markaðsaðstæður nú og á næstu misserum verða hagfelldar til fasteignakaupa og fjárfestinga í húsnæði í samvinnu við núverandi og nýja viðskiptavini,“ kemur fram í fjárfestakynningunni .

Stjórn hefur jafnframt ákveðið að greiða út áður frestaða 1.090 milljóna króna arðgreiðslu þann 9. september „enda meta lögfræðiráðgjafar félagsins ekki annað tækt.“ Í skýrslu stjórnar segir að félagið áformi þó að endurheimta þessa fjárhæð með framangreindri tillögu til hluthafa um kaup á nýju hlutafé.

Sömu sögu er að segja um fasteignafélagið Regin sem hyggst einnig hækka hlutafé til að geta greitt út arð, sem samþykktur var á aðalfundi.