*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 15. nóvember 2021 17:16

Reitir skila 2,8 milljarða hagnaði

Rekstrarhagnaður Reita fyrir matsbreytingu jókst um 30% á milli ára og nam 2,1 milljarði króna.

Ritstjórn
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita
Aðsend mynd

Fasteignafélagið Reitir hagnaðist um 2,76 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 889 milljónir á sama tíma á síðasta ári, og hefur nú skilað 4,6 milljörðum króna í hagnað á fyrstu níu mánuðum ársins.

Líkt og hjá öðrum fasteignafyrirtækjum skýrist munurinn á milli ára að stóru leyti af matsbreytingu fjárfestingaeigna sem námu um 2,1 milljarði á fjórðungnum sem er tvöfalt meira en á sama þriðja fjórðungi 2020.  

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu jókst þó líka um 30% á milli ára og nam 2.083 milljónum. Til samanburðar af rekstrarhagnaður Reita fyrir matsbreytingu 1.903 milljónir á þriðja fjórðungi 2019. Hreinar leigutekjur á þriðja fjórðungi jukust um 15,5% á milli ára, eða úr 2,7 milljörðum í 3,1 milljarð.  

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, segir í tilkynningu að bættur rekstur skýrist af auknum ferðamannastraumi á síðari hluta sumarsins. Þá hafi verslun innanlands verið mjög sterk og nýting eignasafnsins góð. Nýtingarhlutfall fasteigna var 95,1% á fyrstu níu mánuðum ársins.  

Eignir félagsins voru bókfærðar á 166 milljarða í lok september en í árslok 2020 voru þær 156,5 milljarðar. Eigið fé var 56,7 milljarðar, skuldir 109,4 milljarðar og eiginfjárhlutfall því 34,1%.

Í lok þriðja ársfjórðungs nam virði þróunareigna 7,2 milljörðum króna ef frá er talið þróunarhluta Orkureitsins. Þar af er uppbyggingin á Kringlureitnum stærsta verkefnið. „Við Kringluna verða byggðar um þúsund íbúðir, þannig að þetta er risavaxið verkefni,“ sagði Guðjón við Viðskiptablaðið í lok ágúst.  

Reitir tilkynntu fyrir rúmum mánuði síðan um 3,8 milljarða króna sölu á Orkureitnum en viðskiptin skiluðu fasteignafélaginu 1,3 milljarða söluhagnaði. Fyrir tveimur vikum tilkynnti félagið um tveggja milljarða kaup á verslunar- og þjónustuhúsnæði í Sunnukrika í Mosfellsbæ. Þá bættust þrjár verslunareignir, sem keyptar voru af Festi, í eignasafn Reita í byrjun mánðarins.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita:

„Uppgjör Reita fyrir fyrstu níu mánuði ársins liggur fyrir. Eins og tilkynning félagsins til kauphallar frá 27. október sl. bar með sér, þá er reksturinn umfram áætlanir þess og fyrirliggjandi spár greiningaraðila yfir tímabilið.

Megin skýringin á betri afkomu á fjórðungnum en áætlað var er sterkur ferðamannastraumur á síðari hluta sumarsins sem skilaði meiri tekjum en félagið hafði gert ráð fyrir. Að öðru leiti er afkoma Reita í takti við áætlanir, reksturinn er stöðugur og efnahagur félagsins mjög sterkur. Áhrifa covid faraldursins gætir sífellt minna í rekstri félagsins. Verslun innanlands er mjög sterk, nýting eignasafnsins góð og fjárflæði gott.

Um miðjan október sl. tilkynntu Reitir um samkomulag við Íslenskar fasteignir ehf. um sölu á byggingarheimildum og tengdum eignum á svokölluðum Orkureit fyrir 3.830 m.kr. Áætlaður söluhagnaður þessara viðskipta er um 1.300 m.kr. Það er einkar ánægjulegt að þessum áfanga sé náð. Athyglin mun nú beinast að öðrum þróunarreitum félagsins til verðmætasköpunar fyrir hluthafa, en Orkureiturinn var einungis hluti þeirra fasteignaþróunarverkefna sem félagið heldur á.“

Stikkorð: Reitir