Tap Reita fasteignafélags nam 6.553 milljónum króna í fyrra, samanborið við 628 milljónir árið 2011. Í tilkynningu frá félaginu að breyting milli ára sé nær eingöngu fólgin i matslækkun á eignasafni félagsins. Þar segir að það sé mat stjórnenda fyrirtækisins að virðismat eigna Reita í árslok 2012 sé varfærið.

Leigutekjur Reita í fyrra námu 7.880 milljónum króna, en voru 7.658 milljónir árið áður. Hreinar leigutekjur jukust úr 5.898 milljónum króna í 6.077 milljónir. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu var eilítið meiri en árið 2011, eða 5.581 milljónir króna samanborið við 5.550 milljónir árið 2011.

Hrein fjármagnsgjöld jukust úr 6.958 milljónum króna árið 2011 í 7.484 milljónir í fyrra. Í tilkynningunni segir að Nýting fasteigna félagsins, mæld sem hlutfall tekna, hafi verið um 96% í árslok 2012.

Eignir Reita minnkuðu um rúma fimm milljarða milli ára og ræður 5,9 milljarða króna matsbreyting á virði eigna þar mestu. Skuldir félagsins jukust alls um 1,4 milljarð króna. Vaxtaberandi skuldir hækkuðu úr 71,9 milljörðum króna árið 2011 í 74,3 milljarða í fyrra. Eigið fé var 19,5 milljarðar króna í árslok 2011 en 12,9 milljarðar um síðustu áramót.

Í rekstraráætlunum ársins 2013 er gert ráð fyrir bættri rekstrarafkomu frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (NOI) er áætlaður tæpir 6 milljarðar króna og sjóðstreymi áætlað jákvætt. Forsenda áætlana er jákvæð þróun efnahags- og atvinnumála, stöðugleiki á vinnumarkaði og að gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum veikist ekki verulega.

Á árinu 2012 var unnið að skráningu hlutabréfa Reita í kauphöll. Stefnt hafði verið að skráningu fyrir lok árs 2012, en þau áform gengu ekki eftir. Ástæðan er m.a. víðtæk skoðun á áhrifum hæstaréttardóma sem féllu í lok ársins 2012 vegna gengislána á Reiti og forvera þess. Þá hafa Reitir átt í viðræðum við erlendan lánveitanda félagsins um hugsanlega uppgreiðslu lánsins. Þær viðræður hafa tekið lengri tíma en ætlað var. Stefnt er að kauphallarskráningu á árinu 2013.