Reitir krefja Mið­bæjarhótel um 200 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna meintra vanskila í tengslum við framkvæmdir á byggingum við Aðalstræti.

Miðbæjarhótel nýttu sér forkaupsrétt á og keyptu stærstan hluta Aðalstrætis 6 og 8 á 2.465 millj­ónir í október á síðasta ári. Í tilkynningu frá Reitum við það tilefni kom fram að jafnframt ætti að fara fram uppgjör á 200 milljóna framkvæmdakostnaði.

Miðbæjarhótel höfðu leigt húsnæðið fyrir kaupin undir hótelið Centerhotel Plaza. Reitir telja að Miðbæjarhótel hafi verið skuldbundin til að greiða framkvæmdakostnað sem féll til á meðan leigunni stóð. Miðbæjarhótel telja sig ekki skuldbundna til að greiða upphæðina. Þá hafa Mið­bæjarhótel lagt fram gagnkröfu á Reiti og halda því meðal annars fram að fasteignin uppfylli ekki áskilda kosti.