Mat Reitunar á lánshæfi Arion banka hefur hækkað í i.A2 með stöðugum horfum og lánshæfismat sértryggða skuldabréfa bankans hefur hækkað í hæstu mögulegu einkunn eða i.AAA með stöðugum horfum. Lánshæfismat bankans var áður i.A3 með stöðugum horfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum .

Í greiningu Reitunar kemur fram að áframhaldandi bati í eignagæðum, hækkandi eiginfjárþáttur A, góð arðsemi af kjarnastarfsemi og ágætar hagvaxtarhorfur séu meginástæður hækkunar á lánshæfiseinkunn. Þá hafi úrvinnsla vandræðalána gengið samkvæmt áætlun og gæði lánasafnsins aukist til muna. Auk þess hafi hlutfall íbúðalána í lánasafni hækkað og veðstaða batnað samhliða hækkandi fasteignaverði.

„Horfur eru á að lánshæfi bankans gæti batnað enn frekar þegar óvissuþættir í rekstrarumhverfinu skýrast betur, með bættum gæðum útlánasafnsins og stöðugleika í rekstri,“ segir í tilkynningu.