Helga Birna Brynjólfsdóttir hefur starfað við fjármál og greiningar allan sinn starfsferill, nú síðast sem við­ skiptastjóri hjá Borgun, en hún var nýlega ráðin skrifstofustjóri hjá Já og Gallup.

„Starfið felst í raun í því að fjármálagreina bæði Já og Gallup auk annarra skrifstofustarfa. Fyrirtækið útvistar öllu sínu bókhaldi en mitt hlutverk er að taka á móti upplýsingunum og greina þær. Ég starfaði í fjármálageiranum í ellefu ár og svo hjá Símanum við greiningar í þrjú ár. Það má því segja að nýtt starf sameini það sem ég hef verið gera allan minn feril,“ segir Helga sem segist hafa mjög gaman af fjármálagreiningum, sem hún telur að muni nýtast vel í nýju starfi.

Helga er fyrrverandi landsliðskona í handbolta. Hún var hluti af gullaldarliði Víkings í kvenna handbolta sem varð Íslandsmeistari þrjú ár í röð frá 1992 til 1994. Víkingsliðið 1993 er af mörgum talið eitt það besta í íslenskum handbolta frá upphafi en liðið fór í gegnum alla deildarkeppnina án þess að tapa leik. Spurð um áhugamál þá er svarið skýrt: „handbolti“, en Helga er aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Víking

Helga er ekki bara aðstoðarþjálfari heldur spilaði hún með Víkingi í vetur. „Meistaraflokkur kvenna í Víking var endurvakinn síðasta haust og er Díana Guðjónsdóttir þjálfari og ég aðstoðarþjálfari. Á fyrstu æfingunum átti ég erfitt með að horfa bara á æfingar þannig að Díana rak mig heim til að sækja handboltaskóna sem varð til þess að ég spilaði með liðinu í allan vetur. Ég hjólaði einnig töluvert og tók tvisvar þátt í Wow Cyclothon með Símanum en hætti því eftir að ég byrjaði aftur í handboltanum.“

Nánar er rætt við Helgu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .