Forstjóra skyndibitarisans McDonald's, Steve Easterbrook, hefur verið sagt upp störfum. Er uppsögnin tilkomin vegna þess að forstjórinn átti í ástarsambandi við undirmann sinn. Segir skyndibitakeðjan að þó að sambandið hafi verið með samþykki beggja aðila þá hafi forstjórinn farið á svig við reglur fyrirtækisins og sýnt af sér slæma dómgreind. BBC greinir frá þessu.

Í tölvupósti forstjórans til fyrrum samstarfsmanna sinna, viðurkennir hann að hafa átt í ástarsambandi við undirmann sinn og segir sambandið hafa verið mistök.

„Að teknu tilliti til reglna fyrirtækisins, er ég sammála mati stjórnarinnar um að það sé tímabært að ég láti af störfum,“ sagði forstjórinn m.a. í tölvupóstinum.

Hinn 52 ára gamli Easterbrook er fráskilinn, en hann hóf fyrst störf hjá McDonald's árið 1993 og hafði síðan unnið sig upp í æðstu stöðu fyrirtækisins.

Chris Kempczinski, yfirmaður McDonald's í Bandaríkjunum, mun taka við forstjórastarfinu af Easterbrook.