Framlag fjámálageirans til hagvaxtar áranna 2001-2005 nemur um þriðjungi, að því er fram kemur í úttekt sem Háskólinn í Reykjavík gerði fyrir Samtök fjármálafyrirtækja. Ólafur Ísleifsson lektor við skólann kynnti niðurstöðurnar á stofnfundi samtakanna í morgun.

Ólafur sagði ekki fráleitt að ætla að framlag fjármálageirans til landsframleiðslu sé nú hvergi hærra á Norðurlöndunum en á Íslandi. Árið 2004 hefði hlutfallið verið jafnhátt á Íslandi og í Svíþjóð, eða 8,8%, en síðan hefði fjármálageirinn vaxið á Íslandi og stefndi nú í að hlutfallið yrði 10% hér á landi. Til samanburðar er framlag sjávarútvegs rétt liðlega 6% og áls og kísiljárns tæplega 2%, samkvæmt endurmati Háskólans í Reykjavík á tölum Hagstofunnar fyrir árið 2005.

Fjármálageirinn í heild greiðir yfir 40% af öllum tekjuskatti lögaðila að sögn Ólafs eða um 15 milljarða króna. Það jafngildir ríflega 10% af heildarútgjöldum ríkissjóðs á þessu ári.

Að teknu tilliti til tekjuskatts og útsvars starfsmanna, tryggingagjalds, virðisaukaskatts af starfsemi fjármálafyrirtækjanna og fjármagnstekjuskatts eigenda gætu heildarskatttekjur hins opinbera af starfsemi fjármálafyrirtækja legið á bilinu 30-35 milljarðar króna, að sögn Ólafs. Það eru ríflega 8% af öllum skatttekjum ríkis og sveitarfélaga.

Þá kom fram hjá Ólafi að um 4% þeirra sem eru á vinnumarkaði starfa í fjármálageiranum og hefði störfum þar fjölgað ríflega tvisvar sinnum meira árin 1998-2005 en störfum á vinnumarkaðinum almennt eða um 28%.

Samtök fjármálafyrirtækja voru áður regnhlífarsamtök en í dag var undirritaður samningur um að Samtök banka og verðbréfafyrirtækja og Samband íslenskra tryggingafélaga myndu sameinast í þeim. Aðildarfyrirtæki Sambands íslenskra sparisjóða munu auk þess eiga beina aðild að þeim.