Breska dagblaðið The Sun greinir frá því að nokkrir starfsmenn HSBC bankans í Bretlandi hafi verið reknir eftir að þeir tóku upp þykjustunni afhöfðunarmyndband að hætti hryðjuverkasamtakanna ISIS.

Starfsmennirnir settu inn sjö sekúndna myndband á Instagram áður en þeir sáu að sér og eyddu henni. Í myndbandinu sjást fimm manns í svörtum búningum með andlitsgrímur syngjandi á meðan maður í appelsínugulum búningi krjúpir.

Sagt er að myndbandið hafi verið búið til í hópeflisferð í Teamworks Karting, sem er innandyra go-kart braut í Birmingham.

Talsmaður HSBC sagði við The Sun að þeir sem hefðu tekið þátt í þessu „hræðilega“ myndbandi hafi verið reknir og að bankinn sætti sig ekki við hegðun sem þessa.

Hægt er að horfa á myndbandið á vefsíðu The Sun .