Nýtt 150 herbergja Courtyard flugvallarhótel Marriott keðjunnar mun ekki þrengja að framtíðar stækkunarmöguleikum flugvallarins þar sem það rís á lóð sem liggur utan við mörk yfirráðasvæðis Isavia.

Greint var frá því í gær hótelið myndi opna snemma á næsta ári. Fram kom við fyrstu skóflustungu h´telsins í gær að aðstandendur framkvæmdanna hyggi á uppbyggingu enn frekari þjónustu við flugvöllinn í kjölfar opnunarinnar.

Á lóðinni, sem gefið hefur verið nafnið Aðaltorg, kemur einnig til greina að opna matvöruverslun sem verði opin allan sólarhringinn. Þegar er komin þar ÓB eldsneytisstöð á vegum Olís og þá hafa bílaleigur, sem eru með starfsemi á flugvellinum, verið í óða önn að koma sér fyrir á nærliggjandi lóðum. Þar hafa þær fengið úthlutað meira landrými til að geyma og afhenda þúsundir bílaleigubíla sem ferðamenn notast við á ferðum sínum um landið.

Gert er ráð fyrir því að farþegar sem gisti á hótelinu eða þurfi að sækja bílaleigubíl ferðist í framtíðinni með sérstökum gjaldfrjálsum skutlum sem verði í áætlunarakstri frá flugstöðinni, en ferðin tekur á bilinu 2-4 mínútur. Slíkar skutlur eru algeng sjón við erlenda flugvelli.

Það var Rósa Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Álftavíkur sem er leiðandi fjárfestir í verkefninu, sem tók fyrstu skóflustunguna með stórri beltagröfu í gær.