Rekstrarhagnaður Landsnets á fyrri helmingi ársins var 30% meiri en á sama tímabili í fyrra. Endanleg afkoma er aftur á móti á pari við síðasta ár. Félagið greiddi eigendum sínum 1.750 milljón krónur í arð vegna afkomu síðasta árs. Þetta kemur fram í árshlutareikningi sem birtur var í kauphöll í dag.

Tekjur fyrri hluta árs námu 73,1 milljónum dollara, andvirði 9.340 milljón króna á gengi dagsins, en voru 63,8 milljón dollarar á sama tímabili í fyrra. Gjöld jukust um andvirði 300 milljón krónur á milli ára, fóru úr 41,8 milljón dollurum í 44,4 milljón dollara. EBITDA nam 43,7 milljón dollurum og hækkaði um tæplega sjö milljón dollara.

Fjármunatekjur skruppu aftur á móti saman, námu 136 þúsund dollurum nú en sex milljón dollurum fyrri helming 2020. Fjármagnsgjöld voru nú 8,3 milljón dollarar og jukust um 600 þúsund dollara. Hagnaður fyrir tekjuskatt var því 20,6 milljón dollarar, sem er svo til á pari við síðasta ár. Endanlegur hagnaður tímabilsins var tæplega 16,5 milljón dollarar, andvirði 2.106 milljón króna, en var 16,3 milljónir dollara fyrir ári.

Heildareignir félagsins eru metnar á 117 milljarða króna og hafa aukist um tæpa fimm milljarða frá ársbyrjun. Skuldir jukust að sama skapi, nema 66,7 milljörðum króna en voru 62,4 milljarðar í ársbyrjun. Á tímabilinu tók félagið 6,4 milljarða króna lán hjá Norræna fjárfestingabankanum. Eiginfjárhlutfall var 43% og hefur lækkað um 1,4 prósentustig frá því ársbyrjun.

Landsnet annast flutning og kerfisstjórnun raforku hér á landi en það er að stærstum hluta í eigu Landsvirkjunar sem á tæplega tvo þriðju í því. Rarik ohf. á 22,5% hlut, Orkuveita Reykjavíkur tæplega 6,8% og Orkubú Vestfjarða ohf. tæp sex prósent.