Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld eiga tveggja kosta völ til að leysa alvarlegan rekstrar- og fjárhagsvanda Náttúrufræðistofnunar Íslands. Að laga starfsemi hennar að núverandi fjárhagsramma með verulegum niðurskurði í rekstri eða að auka fjárveitingar til hennar svo að hún geti sinnt þeim verkefnum sem henni eru falin í lögum með svipuðum hætti og undanfarin ár.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar, "Náttúrufræðistofnun. Rekstrar- og fjárhagsvandi?, eru greindar þrjár meginástæður þess vanda sem stofnunin hefur glímt við undanfarin þrjú ár. Í fyrsta lagi hafa framlög ríkisins til stofnunarinnar ekki fylgt verðþróun. Í öðru lagi hafa sértekjur hennar lækkað um helming frá því að þær voru hæstar árið 2001. Í þriðja lagi hafa laun og húsaleiga hækkað verulega. Af þessum sökum nægja árlegar fjárveitingar ekki fyrir núverandi rekstri, auk þess sem stofnunin hefur safnað upp nokkrum rekstrarhalla sem greiða þarf upp með einhverjum hætti.

Í viðleitni sinni til sparnaðar hefur Náttúrufræðistofnun dregið svo mjög saman seglin að öflun nýrra gagna hefur stöðvast á mikilvægum sviðum. Ljóst er að ekki verður haldið áfram á þessari sömu braut ef starfsemin á ekki að hljóta skaða af. Yfirmenn stofnunarinnar og talsmenn umhverfisráðuneytisins eru einnig sammála um að með núverandi rekstri nái stofnunin ekki að sinna lögbundnum verkefnum sínum svo að vel sé. Þá er sömuleiðis ljóst að hluti þeirrar aðstöðu sem stofnunin býr við stenst vart nútímakröfur um vinnuaðstöðu starfsfólks, geymsluhúsnæði og aðstöðu til sýningarhalds enda var það hugsað til bráðabirgða á sínum tíma.

Ríkisendurskoðun bendir á að stjórnvöld þurfi að taka afstöðu til þess hversu viðamikil starfsemi Náttúrufræðistofnunar eigi að vera þegar fjárveitingar til hennar eru ákveðnar. Meta þarf ávinning af þeim verkefnum sem hún sinnir og ákveða hver þeirra skuli hafa forgang og umfang þeirra. Mörgum verkefnum er nú sinnt af vanmætti og þarf annaðhvort að fækka þeim markvisst eða styrkja fjárhag stofnunarinnar svo að ráða megi bót á þessum vanda. Þá telur Ríkisendurskoðun orka tvímælis að flytja starfsemi Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar í nýtt rannsóknarhús Háskólans á Akureyri. Áætlað er að viðbótarkostnaður vegna þessa húsnæðis nemi um 25 m.kr. sem er álíka mikið og árleg fjárvöntun stofnunarinnar.

Ríkisendurskoðun bendir á að laun starfsmanna Náttúrufræðistofnunar hafi hækkað langt umfram það sem kostnaðarmat á kjarasamningum segir til um. Þau eru þó ekki hærri en það sem aðrar ríkisstofnanir greiða starfsfólki með sambærilega menntun og reynslu. Launahækkanirnar má því að stórum hluta rekja til launakerfisins sjálfs og launaumhverfis stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun bendir einnig á að stjórnendur Náttúrufræðistofnunar hafi gripið til ýmissa ráða þegar sértekjur drógust saman, eins og að segja upp hluta starfsmanna. Þeir hikuðu þó við að laga reksturinn fullkomlega að fjárráðum stofnunarinnar þar sem þeir töldu að þá gæti hún ekki sinnt lágmarksskyldum sínum.

Þó að fjárhagsvandi Náttúrufræðistofnunar stafi að hluta til af utanaðkomandi ástæðum ber stjórnendum hennar vissulega skylda til að haga rekstri hennar samkvæmt fjárveitingum. Í því samhengi ber þeim m.a. að skoða alla möguleika til hagræðingar og hvort hægt sé að sinna verkefnum á álagstímum með aðkeyptri sérfræðiþjónustu til að draga úr sveiflum í starfsemi stofnunarinnar. Þá bendir Ríkisendurskoðun einnig á að stjórnskipulag stofnunarinnar sé óþarflega flókið miðað við stærð hennar og sömuleiðis sé ábyrgð einstakra stjórnenda ekki nægilega skýr. Huga þarf að því að breyta stjórnskipulagi til að auka sveigjanleika og skýra ábyrgð.