Rekstraraðilar við Hverfisgötu hafa haft fengið lögmann með sér í lið sem vinnur að undirbúningi hópmálsóknar á hendur Reykjavíkurborg. Lögmaðurinn telur að sýna megi fram á rekstraraðilarnir hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna vanefnda og seinagangs borgaryfirvalda. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Samkvæmt Fréttablaðinu er óljóst hvernig rekstraraðilar taka í þessar hugmyndir, en að minnsta kosti þrír þeirra hafi sagst sig reiðubúnir til viðræðna um mögulega hópmálsókn án þess þó að í því felist endanleg afstaða til málsins. Til standi að boða til undirbúningsfundar vegan málsóknarinnar í byrjun vikunnar.

Líkt og mikið hefur verið fjallað um, hefur neðsti hluti Hverfisgötu verið lokaður fyrir bílaumferð, auk þess sem aðgengi gangandi vegfarenda hefur verið takmarkað, frá því í vor. Tafir hafa orðið á verkinu og er ekki búist við að opnað verði fyrir bílaumferð fyrr en eftir miðjan September, í stað lok þessa mánaðar eins og upphaflega stóð til. Þó nokkur fjöldi rekstraraðila hafa komið fram í fjölmiðlum og gagnrýnt borgaryfirvöld fyrir skort á samráði og upplýsingagjöf.

Framkvæmdastjóri RR hótela, Þórður Birgir Bogason, sem reka meðal annars hótel á Hverfisgötu 21, kveðst ekki sáttur við stöðuna frekar en aðrir rekstraraðilar. Hann hafi hins vegar ekki heyrt af hugmyndum um hópmálsókn. „Við höfum haft þetta þannig að allir sem gista í þessu húsi þar sem framkvæmdir eiga sér stað hafa fengið 50 prósenta afslátt. Þetta er gert til að fyrirbyggja óánægju en þýðir mikið tekjutap fyrir okkur á háannatíma," segir Þórður við Fréttablaðið.

Þá segir hann við Fréttablaðið að þessi háttur hafi verið hafður á í tæpar tvær vikur og býst við að þetta muni sömuleiðis vara lungann úr þessari viku. „Þannig verða þetta einhverjar tvær til þrjár vikur í heildina. Til að setja þetta í samhengi þá er tap okkar um 300 þúsund á dag allan þann tíma." Hann segir að þetta sé hins vegar eina leiðin til að halda kúnnunum ánægðum.

Heimildir Fréttablaðsins herma að fleiri rekstraraðilar við götuna hafi þurft að grípa til sambærilegra aðgerða.