Gunnar Einarsson
Gunnar Einarsson
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Afgangur af rekstri Garðabæjar í fyrra nam 352 milljónum króna, sem er töluvert umfram áætlanir, sem gerðu ráð fyrir 75 milljóna króna afgangi. Í tilkynningu frá bæjarfélaginu segir að rekstrartekjur ársins hafi numið 6.714 milljónum rekstrargjöld með fjármagnsliðum 6.362 milljónum króna. Þar segir einnig að bætt afkoma komi einkum til af hærri tekjum vegna fjölgun íbúa í bæjarfélaginu.

Stærsti kostnaðarliður í rekstri bæjarins voru laun og launatengd gjöld sem námu 2.913 milljónum. Umfangsmesti málaflokkurinn voru fræðslu- og uppeldismál en til hans var varið tæpum þremur milljörðum. Rúmar 718 milljónir runnu til íþrótta- og æskulýðsmála og 590 milljónir til félagsþjónustu.

Í tilkynningunni segir að skuldahlutfall hafi lækkað úr 113% í 96%, en langtímaskuldir við lánastofnanir og leiguskuldir námu samtals 3.793 milljónum króna í fyrra samanborið við 4.216 milljónum árið 2010. Eignir námu samtals 15.596 milljónum árið 2011 og hafa hækkað um 562 milljónir milli ára.