*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 29. maí 2020 11:33

Rekstrarafgangur nam 300 milljónum

Heildareignir Ölfuss í lok árs 2019 námu 5,2 milljörðum króna. Rekstrartekjur Þorlákshafnar voru um 229 milljónir.

Ritstjórn
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.
Haraldur Guðjónsson

Rekstrarniðurstaða Ölfuss var jákvæð um 300,3 milljónir króna á rekstrarárinu 2019. Það er um 23,4% aukning frá árinu 2018 þegar rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins var jákvæð um 242,8 milljónir króna. A hluti Ölfuss skilaði 195 milljóna króna afgangi, samkvæmt ársreikningi Ölfuss. 

Heildareignir A og B hluta nema um 5,2 milljarða króna. Bókfært eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2019 var tæplega 3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall þess stóð í 56,8%. 

Að mati Elliða Vignissonar bæjarstjóra er ánægjulegt að sjá skatttekjur án framlaga úr jöfnunarsjóði hækka úr 1,4 milljarði árið 2018 í 1,6 milljarð árið 2019. Hann segir skatttekjur hafa hækkað um 16% frá árinu 2017 vegna íbúafjölgunar á undanförnum árum. 

Íbúum Ölfuss fjölgaði um 5,5% á árinu 2019 og hefur þeim fjölgað um 13,3% á fjórum árum. Bæjarstjórinn gerir ráð fyrir frekari fjölgun íbúa enda mikil og hröð umsvif í byggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu.  

Elliði segir að út frá ársreikningum megi lesa að kjarnarekstur íslenskra sveitarfélaga snýst um þrjá málaflokka. Það eru fræðslu- og uppeldismál sem taka til sín 50,4% af skatttekjum, æskulýðs- og íþróttamál með 14,2% skatttekjum og félagsþjónusta með 14,9%. Samtals taka þessir þrír málaflokkar til sín 79,5 af rekstrargjöldum. 

Árangur Þorlákshafnar einungis reykurinn af réttinum

Rekstrartekjur Þorlákshafnar á síðasta ári námu 229 milljónum króna og hækka um 12% milli ára. Rekstrarniðurstaða hafnarinnar voru rétt tæpar 87 milljónir króna. Elliði segir að höfnin hafi tekið stakkaskiptum með tilkomu siglinga Smyril line. 

Í dag þjónustar Smyril line inn- og útflutningsaðila á ekjuskipinu Mykines sem heldur uppi vikulegum siglingum milli Þorlákshafnar og Rotterdam og Akranesinu sem siglir milli Þorlákshafnar og Hirtshals.  

„Mat flestra er að uppbygging hafnarinnar sem inn- og útflutningshafnar sé rétt að hefjast og árangurinn, svo magnaður sem hann er, sé einungis reykurinn af réttinum,“ segir Elliði í fréttatilkynningu sveitarfélagsins. „Frekari vöxtur sé framundan.“