Rekstrarafkoma ISAVIA fyrir fjármagnsliði og skatta batnaði um 30% milli ára ef horft er á fyrri helming ársins. Var hún jákvæð um 1.620 milljónir króna. Rekstrartekjurnar jukust um 26%, 2.953 milljónir á tímabilinu og námu þær 14.408 milljónum króna.

Heildarafkoma tímabilsins var jákvæð um 1.667 milljónir króna en á sama tímabili í fyrra var hún 540 milljónir, og hefur hún því hækkað um 1.227 milljónir króna. Þar af má rekja 670 milljónir króna til gengisáhrifa af erlendum fjáreignum og skuldum.

Isavia rekur Keflavíkurflugvöll, Fríhöfnina, Innanlandsflugvallakerfið og flugleiðsöguþjónstu.

Á tímabilinu fóru um 2,7 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll, sem er aukning um 34% frá sama tímabili í fyrra, en þetta er svipaður fjöldi og fór um völlinn allt árið 2012. Gera áætlanir félagsins ráð fyrir að heildarfjöldinn á árinu verði um 6,7 milljónir sem er um 37% aukning milli ára.

Flugumferð um íslenska flugumferðarsvæðið jókst um 10% á tímabilinu en flugumferð til og frá landinu jókst um 24%.

Fjölgun á innanlandsflugvallarkerfinu var 6,8%, en á árunum 2011 til 2015 var hins vegar fækkun farþega í því.