Íslensk þjónustufyrirtæki á heildsölumarkaði lyfja búa á margan hátt við erfið starfsskilyrði. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecon vann að beiðni Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.

Ný skýrsla Intellecon er ætlað að vera innlegg í umræður um rekstrarumhverfi þjónustufyrirtækja á lyfjamarkaði. Þau starfa á einkeypismarkaði þar sem kaupandinn ræður verði og allri umgjörð. „Þegar við fórum að skoða þennan markað kom á óvart hvað hið opinbera gegnir stóru og viðamiklu hlutverki,“ segir Gunnar Haraldsson hagfræðingur og stofnandi Intellecon.

„Um er að ræða svonefndan einkeypismarkað þar sem ríkið er ráðandi kaupandi, en við það bætist að ríkið setur líka lög og reglur um alla umgjörð markaðarins, þar með talið lyfjaverð.“

Fyrirtæki komin að þolmörkum

Bent er á að nægilegt framboð lyfja skipti sköpun varðandi velferð þjóðarinnar og að lyfjakostnaður hér sé lágur í samanburði við nágrannalöndin.

Rekstrarskilyrði þjónustufyrirtækja í lyfjageira hafi hins vegar versnað á síðasta áratug, bæði vegna breytinga á verðlagsstefnu hins opinbera og vegna ytri áhrifa, svo sem styrkingar á gengi krónunnar og aukins launakostnaðar.

„Á sama tíma hafa kröfur aukist og kostnaður vegna regluverks orðið sífellt meira íþyngjandi án þess að stjórnvöld hafi bætt upp þann kostnað með breytingum á gjaldskrá,“ segir í skýrslunni.

Ýmislegt er sagt benda til að komið sé að þolmörkum.

„Skýrsluhöfundar hafa fundið vísbendingar um að rekstrarafkoma hvað varðar þjónustu vegna lyfseðilsskyldra og S-merktra lyfja hafi farið mjög versnandi upp á síðkastið og sé langt undir því sem eðlilegt getur talist til lengri tíma litið,“ segir þar jafnframt.

„Ef svo fer fram sem horfir gæti það leitt til þess að rekstrargrundvöllur þeirra sé ekki lengur til staðar.“ Það gæti þýtt að hið opinbera yrði sjálft að taka yfir hlutverk fyrirtækjanna, sem búast megi við að verði flókið og kostnaðarsamt. „Ekki er víst að kostnaðarhagræði fengist af slíku fyrirkomulagi.“

Ríkið þarf að vanda til verka

Hlutverk íslensku þjónustufyrirtækjanna vegna markaðssetningar, skráningar og dreifingar lyfja fyrir hönd lyfjafyrirtækja er sagt margþætt.

Til dæmis þarf að sannreyna gæði lyfjanna og tryggja vörumeðferð, auk þess að uppfylla skilyrði um merkingar á íslensku, sjá um birgðahald, birgðastýringu og taka á sig áhættu vegna óvissu í bæði eftirspurn og vegna gengissveiflna.

Velt er upp þeirri hugmynd hvort tímabært sé að endurskoða fyrirkomulag ákvarðana um hámarksverð leyfisskyldra lyfja í heildsölu og hætta að miða almennt við lægsta verð á Norðurlöndum.

„Íslenski markaðurinn er örsmár í þeim samanburði og kostnaður við innflutning og þjónustu að stórum hluta óháður stærð markaðarins sem gerir slíkan samanburð að mörgu leyti ójafnan.“ Aðrar leiðir eru sagðar færar til að tryggja lágt lyfjaverð á sama tíma og uppfyllt séu skilyrði laga um nægilegt framboð nauðsynlegra lyfja.

„Öllu skiptir að vandað sé til verka hjá hinu opinbera við breytingar á umgjörð lyfjamála. Við fögnum þessari skýrslu sem mikilvægu innleggi í viðræður við stjórnvöld, hvort sem er vegna breytinga á lyfjalögum eða í tengslum við fyrirhugað samstarf við aðrar þjóðir um innkaup á lyfjum,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.