Hagnaður Marel á öðrum ársfjórðungi 2014 nam 0,8 milljónum evra, samanborið við 5,2 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. Félagið birti uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung í dag. Tekjur félagsins námu 169,8 milljónum evra en það er um átta milljónum lægra en í fyrra. EBITDA var 13 milljónir evra, samanborið við 19 milljónir í fyrra.

Afkoma félagsins er þó talsvert betri en á fyrsta ársfjórðungi. Þá námu tekjur tæpum 155 milljónum evra og 1,9 milljóna evra tap varð á rekstrinum. Í lok annars ársfjórðungs stóð pantanabók í 156,4 milljónum evra, samanborið við 138,4 milljónir evra í lok fyrsta ársfjórðungs.

Leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) var 10,7 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi. Á fyrsta ársfjórðungi var leiðréttur rekstrarhagnaður 4,6 milljónir evra. Í byrjun árs tilkynni Marel að gert væri ráð fyrir 55 milljóna evra leiðréttum rekstrarhagnaði á árinu. Uppfært mat stjórnenda í kjölfar uppgjörsins er að leiðréttur rekstrarhagnaður verði 40-50 milljónir evra.

Rekstrarniðurstaðan ekki viðunandi

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að markaðir Marel hafi þróast með jákvæðum hætti. Megináhersla sé á að auka skilvirkni í markaðssókn og rekstri með það að markmiði að rekstrarhagnaður ársins 2017 verði yfir 100 milljónir evra.

Í tilkynningunni er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marel, að hann sé ánægður með þann árangur sem náðist á öðrum ársfjórðungi. Rekstrarafkoma hafi batnað og tekin hafi verið markviss skref í hagræðingu rekstrar. Hann segir þó að rekstrarniðurstaðan sé enn ekki viðunandi.