*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 20. október 2020 17:05

Rekstrarafkoman allt að 15% meiri

Eimskip býst við að EBITDA afkoma félagsins á þriðja ársfjórðungi samsvari allt að 3,6 milljörðum króna.

Ritstjórn
Flutningsmagn í áætlunarsiglingum Eimskipafélags Íslands jókst lítillega á milli ára á þriðja ársfjórðungi.
Aðsend mynd

Samkvæmt stjórnendauppgjöri Eimskipafélag Íslands fyrir þriðja ársfjórðung 2020, sem lá fyrir fyrr í dag, lítur út fyrir að EBITDA félagsins verði á bilinu 21,5 til 22,0 milljónir evra samanborið við 20,3 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs.

Það er að rekstrahagnaðurinn utan afskrifta og fjármagnsliða geti numið sem nemur allt að 3,6 milljörðum íslenskra króna. Viðskiptablaðið sagði frá því í gær að gengi bréfa félagsins hefði hækkað um nærri 28% frá því að það fór lægst í kjölfar umfjöllunnar þáttar Kveiks um afdrif tveggja skipa félagsins. Engin breyting var á verði bréfa félagsins í viðskiptum dagsins.

Þá gerir félagið ráð fyrir að rekstrarhagnaðurinn, EBIT muni liggja á bilinu 10,1 til 10,6 milljónir evra samanborið við 9,2 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs, Það er að hann geti samsvarað allt að 1,7 milljörðum króna.

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins jókst lítillega samanborið við sama ársfjórðung síðasta árs eftir samdrátt á fyrstu tveimur fjórðungum þessa árs. Þá var magn í frystiflutningsmiðlun á pari við sama fjórðung síðasta árs.

Félagið ákvað að tilkynna um niðurstöðu stjórnendauppgjörsins, þar sem afkomuspá félagsins fyrir árið 2020 hefur ekki verið endurvakin auk óvissu á mörkuðum. Félagið segir að áhrif COVID-19 faraldursins á alþjóðahagkerfið séu áfram óljós fyrir komandi mánuði, en það vinni að uppgjöri þriðja ársfjórðungs og afkoman geti því tekið breytingum í uppgjörsferlinu

Eimskipafélagið birtir uppgjör þriðja ársfjórðungs 2020 eftir lokun markaða fimmtudaginn 19. nóvember.