Rekstrartekjur eftir skatta í álframleiðslu Alcoa voru neikvæðar um 101 milljón dala á fjórða ársfjórðungi, sem er 398 milljóna dala lakari árangur en í fjórðungnum á undan. Þessu veldur hratt lækkandi álverð sem ávinningur vegna styrkingar dalsins, lægri orkukostnaðar og rekstrarbata hjá Fjarðaáli vóg ekki upp nema að hluta til. Fjarðaál er dótturfélag Alcoa og rekur álverið í Reyðarfirði.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu Alcoa, en félagið skilaði tapi á fjórða ársfjórðungi, eins og vb.is skýrði frá í gærkvöldi.

Í tilkynningunni er haft eftir Klaus Kleinfeld, framkvæmdastjóra Alcoa, að þegar hagkerfið nái stöðugleika á ný muni meginstraumarnir í heiminum skapa tækifæri fyrir kjarnaframleiðslu fyrirtækisins. „Við erum í einstakri stöðu til að grípa þessi tækifæri,“ er haft eftir Kleinfeld.