Rekstrarhagnaður Eimskips fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 13,9 til 14,9 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi miðað við 9,3 milljónir evra á sama tímabili fyrir ári samkvæmt stjórnendauppgjöri félagsins. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá Eimskip. Afkoman batnar því um 49%-60% á fyrsta fjórðungi á milli ára.

Þá er ráðgert að rekstrarhagnaður að teknu tilliti til afskrifta (EBIT) verði 2,2 til 3,2 milljónir evra samanborið við rekstrartap upp á 1,6 milljónir evra á sama tímabili fyrir ári.

„Reksturinn gekk almennt ágætlega á fjórðungnum þrátt fyrir krefjandi aðstæður á þeim mörkuðum sem félagið starfar á og hagræðingaraðgerðir síðasta árs halda áfram að skila sér,“ segir í tilkynningu Eimskips.

Þá bendir flutningafélagið á að afkoman á fyrsta fjórðungi sé engu síður innan marka afkomuspár ársins 2021 þar sem spáð er EBITDA hagnaði á bilinu 68 til 77 milljónir evra. EBITDA á fyrsta ársfjórðungi árið 2020 var hins vegar undir væntingum félagsins.

Rætist afkomuspá Eimskips fyrir árið 2021 verður um talsverðan rekstrarbata að ræða en EBITDA félagsins árið 2020 nam 61,7 milljónum evra og 60,55 milljónum evra árið 2019.

Bent er á að uppgjörið geti tekið breytingum en endanlegt uppgjör verður birt eftir lokun markaða þriðjudaginn 11. maí.